[
heim |
ný færsla
]
Böö Thu Aug 27 23:28:07 2009
Nú eru bara tvær vikur í flutninginn til London. Spennó. Líka mikið að gera. Enginn tími til að hanga á netinu. [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Lok Eistlandsdvalar og svo heim
Síðasti mánuðurinn okkar í Tallinn var rosa fínn. Hinrik flaug lítið, veðrið batnaði með hverjum deginum og við gerðum alls konar skemmtilegt. Við uppgötvuðum ungbarnamiðstöð sem bauð upp á leikfimi fyrir Bjart tvisvar í viku, auk þess sem við mættum á opið hús þar sem Bjartur fékk að mála í fyrsta sinn. Þetta kom að sjálfsögðu fram á síðunni hans. Síðustu helgina okkar leigðum við bíl og fórum í frábærlega vel heppnað ferðalag um Eistland. Keyrðum til Paide þar sem við skoðuðum kastalarústir og síðan til Viljandi þar sem við lékum okkur við stórt vatn og skoðuðum síðan aðrar kastalarústir. Þær síðari voru virkilega fallegar og á ótrúlega flottum stað, tókum margar myndir. Þaðan fórum við svo til Odepaa sem er lítið sveitaþorp þar sem við gistum á huggulegu hóteli. Daginn eftir fórum við á hæsta tind Eistlands, Suur Munamagi sem er heilir 318 metrar á hæð. Þaðan keyrðum við um hæðóttar og skógi vaxnar sveitir til Tartu, sem er aðal háskólabærinn í Eistlandi. Þar röltum við í góðu veðri og fengum okkur að borða áður en við keyrðum aftur til Tallinn. Síðasta vikan fór svo í að pakka og fara í göngutúra í sól og blíðu. Nutum þess í botn, enda höfðum við það á tilfinningunni að við værum að koma heim í rok og rigningu. Við settum ellefu kassa í póst og tókum samt með okkur rúm 100 kg í farangri, það er ekkert smá sem er hægt að sanka að sér á sex mánuðum. Svo hefur heldur betur ræst úr rigningar- og rokspánum, en það er samt yndislegt að vera komin heim, og þar sem ég sit núna í æðislega sófanum mínum í íbúðinni minni að sötra kristal plús og horfa á Skjá Einn með öðru auganu, þá bara skil ég ekki afhverju ég er að flytja aftur út eftir aðeins fjóra mánuði....... :-S Þannig að sumarið verður nýtt alveg sérstaklega vel. Þetta verður bootcamp- og útilegu sumarið mikla. Við skötuhjúin byrjuðum í langþráðu bootcampinu í dag, og mín keypti sér 18 vikna námskeið sí svona. Nú þarf bara að byrja að skipuleggja útilegurnar :-) [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Umferðareyjan okkar í Tallinn
Íslendingar voru víst fyrsta þjóðin til að viðurkenna endurnýjað sjálfstæði Eistlands árið 1991. Af því tilefni hafa eistar nefnt torg í höfuðið á okkur hérna í Tallinn. Svo ku hann Geir H. Haarde hafa lagt land undir fót árið 2006 til að afhjúpa forláta minnisvarða um þennan merkisatburð. Mission gærdagsins hjá okkur fjölskyldunni var að finna þetta fína torg. Við byrjuðum á að spyrja vegar í hótelinu hérna á móti, og lögðum síðan af stað glöð í bragði í góða veðrinu. Einum og hálfum tíma síðar spurðum við aftur til vegar á öðru hóteli, og komumst að því að fyrra hótelið hafði sent okkur í kolvitlausa átt. Græddum þó skemmtilegan labbitúr um hverfi sem við höfum ekki skoðað áður. Hálftíma síðar stóðum við andspænis Íslendingatorginu. 'Torg' er þó ekki rétta orðið. Þetta er líkara ofvaxinni umferðareyju. Og við sáum hvergi þennan fína minnisvarða. Eftirá fréttum við að hann er á vegg á nálægri byggingu. 'Torgið' okkar er því nokkrar hellur á gatnamótum, með runnum á. Júbbdidú. [ bókamerkja færsluna | breyta ]
17. mars - St. Patrick's Day
Jahérna, einn og hálfur mánuður. Það er líklega met. Ég hef lengi verið á leiðinni að skrifa eitthvað, en fæ einhvern veginn alltaf útrás fyrir því á síðunni hans Bjarts. Líka af því flest sem ég hef að segja tengist honum :-) Það er þó best að koma með smá samantekt hérna yfir hvað hefur á daga okkar drifið. Við fórum aftur í dagsferð til Helsinki með Íslendingunum hérna 9. febrúar. Það var voða gaman, sérstaklega í barnadeild H&M. Svo sendi ég umsóknir til tveggja skóla í Bretlandi. Spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Hinrik fór í vinnuferð til Pakistan og lenti í heljarinnar ævintýri (árás, eldsvoði, óeirðir, bilun, 36 tímar í flugvél) sem varð til þess að ég fór ekki í TOEFL prófið, sem skiptir svosem engu. Svo fórum við Bjartur til Íslands 3. mars og Hinrik kom svo líka þann 7. Við komum svo öll saman aftur út 13. mars og það var líka í fyrsta sinn sem Bjartur fór með pabba sínum (atvinnuflugmanninum) í flugvél, þó þetta væru 13. og 14. flugferðin hans. Fáránlegt. Í gær varð Hinrik minn þrítugur. Við héldum upp á það með fjölskyldunni heima á Íslandi, en í gær héldum við líka smá boð hérna úti. Karlinn barasta kominn á fertugsaldurinn. Jahérna :-) Svo er útlit fyrir að þessari dvöl okkar í Tallinn sé bráðum að ljúka. Verð að viðurkenna að við erum farin að sjá íslenska sumarið í hillingum... langar svo að trítla með Bjart niður í bæ á 17. júní og fara með hann í útilegu í Þórsmörk og í sund og í húsdýragarðinn og í berjamó.... :-) Annars fór ég í tölvuna til að tjá mig um eitthvað allt annað. Gerði það á síðunni hans Bjarts, getið bara séð það þar. Ætla núna að fara og kúra hjá strákunum mínum. Góða nótt [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Heimsókn til Tallinn og Helsinki og 1. feb
Vó, febrúar er kominn. Við Hinrik erum sex ára í dag :-) Ætlum að halda upp á það í sitt hvoru lagi. Hann borðar líklega á McDonald's í Vilníus seint í kvöld, og ég ætla að borða fisk Bjarti til samlætis. Hann fær reyndar graut. Lífið hérna í Tallinn gengur bara sinn vanagang. Mamma og pabbi komu í heimsókn 21. janúar og voru í viku. Það var rosa gaman að geta sýnt þeim hvernig við búum. Við löbbuðum heilan helling og spiluðum svolítið catan. En aðalmálið var náttúrulega að Bjartur fengi að leika við þau. Hann er orðinn svo mikil mannafæla litla greyið. Er hræddur við flestalla þessa dagana, en hefur sem betur fer ekki náð að gleyma þeim alveg, við höfum hist það reglulega síðan við fluttum út. Svo kíktum við öll í dagsferð til Helsinki 26. janúar. Fórum með ferjunni eldsnemma um morguninn og heim aftur um kvöldið. Við náðum að ganga svolítið um borgina og fórum í smá útsýnisrúnt með tramma. Hápunkturinn var að mínu mati Dómkirkjan. Hún er ægilega falleg. Borgin sjálf heillaði mig þó ekki og ég yrði held ég ekkert voða leið þó ég færi þangað aldrei aftur. En það er kannski ekkert að marka dagsferð. Ég fékk bara ekki þessa notalegu tilfinningu sem ég fékk þegar ég gekk fyrst um Tallinn. En já, þetta var voða skemmtileg heimsókn, og nú eigum við þessa fínu dýnu sem þarf endilega að nota meira. Þannig að allir að skella sér í heimsókn! :-) [ bókamerkja færsluna | breyta ]
2009 gengið í garð Úbbs. Tíminn líður svo hratt og ég fer orðið svo sjaldan í tölvu og þessi síða er svo neðarlega á forgangslistanum. Vonandi áttu allir gleðileg jól og gleðileg áramót. Og vonandi verður árið 2009 jafn gott og árið 2008, ef ekki betra. Árið 2008 var nefnilega æðislegt - fyrir mig að minnsta kosti. Takk fyrir það. Hlakka til. [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Meira um jólakort
Jæja, það lítur út fyrir að við verðum í Steinagerðinu yfir jólin, allavega við mæðginin. Númer 13. 108 Rvk. Svo kemur Hinrik milli jóla og nýárs. Annars er maður bara á milljón að reyna að undirbúa jólin. Við erum búin að finna það út að Eistlendingar senda lítið af jólakortum. Það er allavega ekki hægt að kaupa jólakort í pakka - bara í stykkjatali. Það er dýrt, þannig að við þurfum að föndra öll kortin takk fyrir. Fínt að vera að byrja á því 12. desember..... [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Við viljum fá fullt af jólakortum
Til þeirra sem vilja senda okkur jólakort (vonandi allir): Við vitum ekki enn hvar við verðum um jólin. Annað hvort heima hjá mömmu og pabba eða hérna í útlandinu. Skal láta vita um leið og ég veit. Heimilisfangið okkar hérna er eftirfarandi: Jahu 1-9 10415 Tallinn Harjumaa Estonia [ bókamerkja færsluna | breyta ]
Jólaskapið alveg að koma Hellú. Jamm við búum enn í Tallinn. Það er fínt. Bjartur er reyndar enn með þetta kvef þannig að við höfum minna farið út en ella. Við erum þó búin að finna tvær fínar líkamsræktarstöðvar hérna rétt hjá og ungbarnasund júhú :-) Erum búin að fara til læknis þrjá daga í röð í fusiotherapy og í dag fórum við svo í stórt moll að versla dóterí og reyna að byrja á jólagjöfunum. Enduðum á að kaupa fullt af dóti handa kútnum og bara eina jólagjöf hehe. Það er bara svo gaman að versla fyrir Bjart. Engar áhyggjur, það eru ennþá 27 dagar til jóla. Svo er maður að vinna í jólaskapinu. Keyptum jólastjörnu á stofuborðið sem hjálpar. Svo er alltaf nóg til af piparkökum og mandarínum og Hinrik er duglegur að spila jólalög fyrir Bjart. Svo er æðislegt að rölta í gegnum gamla bæinn hérna. Þar er allt á kafi í snjó (eins og annars staðar) og jólamarkaðurinn er kominn, ilmar allt af ristuðum hnetum og heitu kakói. Mmm. Mjög sjarmerandi. [ bókamerkja færsluna | breyta ]
...framhald + Tallinn
Eftir fyrra flugið tók við átta tíma dvöl á flugvellinum í Amsterdam. Það tók reyndar rúma tvo tíma bara að sækja farangurinn og tékka hann áfram, þannig að biðin sjálf var bara um sex tímar. Bjartur var ótrúlega duglegur að vanda, og varð bara pínu pirraður alveg síðast. Flugið til Vilníus var ekki jafn gott og fyrra flugið. Það var miklu þrengra þó við værum reyndar aftur heppin og höfðum laust sæti við hliðiná okkur. Lendingin var verst, því lækkunin var svo hröð að við fengum mikinn þrýsting í eyrun og það fannst Bjarti vont. Ég reyndi að fá hann til að drekka á meðan svo hann myndi kyngja reglulega en þegar þrýstingurinn varð of mikill hætti hann til að öskra. Litla greyið, það blæddi meira að segja pínulítið úr nefinu á honum :-( Mikið var gott að komast út úr flugvélinni og til Hinriks sem beið rétt fyrir utan með glænýjan bílstól. Þetta var í heild 18 tíma ferðalag og ég er ekki viss um að það finnist tæplega fimm mánaða gamalt barn sem gæti höndlað þetta betur en Bjartur gerði. Hann er algjör hetja. Svo bjuggum við í Vilníus í viku. Þar sem við héldum að við værum að fara að búa þar töluvert lengur gerðum við ekki mikið. Bara nutum þess að hafa lítið að gera eftir allt brjálæðið heima. Fórum í labbitúra niður í gamla bæinn og í búðina í mollinu okkar. Við nefnilega bjuggum á 20. hæð í turni sem er fastur við verslunarmiðstöð sem kallast Europa Mall eða eitthvað svoleiðis. Mjög fín íbúð og mjög fín staðsetning. Svo ákvað Hinrik að reyna að fá að skipta við einn flugmanninn sem var staðsettur í Tallinn, því þar eru einnig tveir aðrir flugvinir Hinriks staðsettir sem ætla að fá fjölskyldur sínar hingað út. Þessi eini var rosalega góður og ákvað að skipta við Hinrik, þannig að bimmsarabimm, núna erum við flutt til Tallinn! Þetta var ákveðið á fimmtudagskvöld. Strax næsta morgun fundum við íbúð í Tallinn á netinu, hringdum í leigusalann og tryggðum okkur íbúðina. Hinrik leigði svo bíl og við lögðum af stað snemma á laugardagsmorgun. Road trip um baltic löndin :-) Í rigningu og grámygluðu veðri júhú! Og svo ég steli nú setningunni hans Hinriks: morgunmatur í Litháen, hádegismatur í Lettlandi og kvöldmatur í Eistlandi. Sáum ekkert, nema jú Hinrik sá einn viðbjóðslegan kamar. Spyrjið hann endilega út í það við tækifæri. Ferðin tók aðeins um 10 tíma sem er nokkuð gott myndi ég segja. Bjartur var sami engillinn og alltaf. Líklega bara voða glaður að fá loksins að sitja í bílstólnum sínum sem honum þykir svo notalegt. Þegar við komum til Tallinn biðum við bara í svona 20 mínútur eftir leigusalanum og fórum svo beint í íbúðina okkar. Svona geta hlutirnir stundum gerst hratt. Og já. Nú búum við í þessari fínu íbúð á besta stað í Tallinn. Við erum um fimm mínútur að ganga yfir í gamla bæinn sem er voða sætur. Svipaðan tíma tekur að ganga yfir í ágætis kjörbúð, og svo er moll í um 15 mínútna fjarlægð. Við erum reyndar búin að vera inni síðan á sunnudaginn því Bjartur greyið er lasinn, þannig að við eigum eftir að skoða staðinn betur, en þetta leggst voða vel í mig allt saman. Svo erum við búin að finna tvo salsastaði þar sem dansað er vikulega og báðir eru þeir í göngufjarlægð. Á næstu vikum koma hinar tvær fjölskyldurnar svo til með að flytja hingað og þær búa hérna í næsta húsi við okkur. Þá höfum við konurnar og börnin félagsskap af hvert öðru á meðan kallarnir eru í löngu flugtúrunum til Dubai og Goa og égveitekkihvert. Jessöríbob. Þannig er nú það. Því miður er nettengingin hérna ekki sú besta og virðist hún ekki ráða við að setja myndir inn á síðuna hans Bjarts. Ég er búin að reyna og reyna síðustu daga en voða lítið gengið. Við hljótum þó að finna út úr því. Núna ætla ég að fara og gera eitthvað. Þarf t.d. að læra orð dagsins. Í gær var það "takk" eða "aitäh". Þar til næst, hüvasti! (=bless) [ bókamerkja færsluna | breyta ]
|